Segir sumarhúsaeigendur hunsaða

Landssamband sumarhúsaeigenda skorar á stjórnvöld að fella niður skatta af söluhagnaði frístundahúsa. Sveinn Guðmundsson, formaður sambandsins, segir frístundahús ekkert annað en framlengingu af heimili fólks. Hann segist enga áheyrn fá frá stjórnvöldum um tillögur sambandsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Tuttugu prósent tekjuskattur er lagður á söluhagnað sumarhúsa í dag. Sveinn segir að dæmi séu um að fólk sem sé komið á ellilífeyri geti lent í því að fá ekki ellilífeyrinn þegar það selur sumarhúsin sín.

„Við höfum í gegnum tíðina verið að vinna í því að fá stjórnvöld til að skilja þá stöðu sem fólk er í. Frístundahús er ekki fjárfesting, heldur annað heimili. Ef þú kaupir húsnæði í bænum þar sem þú ert með lögheimili þá þarftu ekki að borga hagnað af því ef þú ert búinn að eiga það í tvö ár og selur það. Okkur finnst að sama ætti að gilda um sumarhúsin,“ segir Sveinn.

 

Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda. Mynd/Sveinn Guðmundsson

Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda. Mynd/Sveinn Guðmundsson

Sveinn bendir á að á eignarhaldstíma, sem getur spannað áratugi, hafi farið fram margvíslegar endurbætur og viðbætur sem geta náð verulegum fjárhæðum og haft áhrif á endursöluverð sumarhúss. Erfitt sé þó að halda bókhald af húsi sem búið er að eiga í áratugi, því taki söluhagnaður oft ekki mið af þeirri fjárhæð sem búið er að setja í húsið.

Sveinn segir sambandið hafa ítrekað gert tilraunir til áheyrnar stjórnvalda, en enginn fjármálaráðherra hafi haft áhuga á því að liðsinna fólki og sýna þessu skilning. „Það er enginn vilji til að taka okkur í viðtal, við höfum beðið um fund með fjármálaráðherra varðandi erindi sem við sendum á sínum tíma.“

Sveinn segir að fólk geti farið ýmsar krókaleiðir til að forðast skattinn. „Það getur framselt frístundahúsin til barna sinna með fyrirframgreiddum arfi, en börnin þurfa að greiða tíu prósent skatt af því. Fólk á ekki að þurfa að fara einhverjar krókaleiðir. Það verður líka alltaf einhver kostnaður af þeim,“ segir Sveinn Guðmundsson.

 

Aðalbjörg Guðgeirsdóttir

Aðalbjörg Guðgeirsdóttir

Bæturnar skerðast um tíu þúsund á mánuði
Dæmi eru um að ellilífeyrir og örorkubætur skerðist um tugi þúsunda vegna sölu einstaklinga á sumarhúsum.  Aðalbjörg Guðgeirsdóttir, sem er öryrki, seldi fyrir ári sumarbústað sem hún hafði átt í tuttugu ár og skerðast bætur hennar um tíu þúsund krónur á mánuði vegna þess.

„Ég taldi að það gilti það sama um sumarhús og íbúðarhús, að ég þyrfti ekki að borga skatt af því. En svo fékk ég reikning frá Tryggingastofnun upp á 377 þúsund krónur,“ segir Aðalbjörg.

Hún útskýrir að eitthvað af reikningnum hafi verið út af því að hún hefði bætt við sig vinnu en 204 þúsund krónur hafi verið út af sölu sumarbústaðarins.

„Tryggingastofnun leyfði mér að dreifa þessu á þrjátíu og sex mánuði, hún tekur tíu þúsund krónur af bótunum mínum yfir þann tíma og svo fara tuttugu þúsund krónur í skatt í hverjum mánuði út af þessum litla söluhagnaði. Þetta eru þrjátíu þúsund krónur á mánuði sem mann munar verulega um,“ segir Aðalbjörg.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *